Vorið er komið

Vorið kom með pompi og prakt um miðja síðustu viku eftir hrikalega blautan janúar. Það er óneitanlega notalegt að spóka sig aftur um í sumarkjólum, stuttermabolum og kvartbuxum. Eins gott að við vorum ekki búin að pakka öllum sólgeraugunum okkar niður. 

Spáin fyrir næstu 10 daga er sól og 20 celsíusstig. Það verður hressandi að fá smá hita í kroppinn áður en við komum heim kuldann, rokið og snjóinn!

Edda. 


Jafntefli

Hér vilja fjölmiðlar meina að jafntefli hafi orðið á milli Clinton og Obama. Mikið hrikalega var samt pirrandi að horfa á sumar af kosningavökunum í gær. Þar voru eintómar karlrembur að blaðra og hlutleysið var ekkert. Þeir fundu Hillary allt til foráttu og lofsungu Obama út í eitt.

Annars verð ég að gefa ykkur dæmi um innihaldslausa þvaðrið sem vellur endalaust upp úr Obama. Hann talar í eintómum slagorðum og eitt hrikalegasta dæmið er:

"There isn´t the Democratic States of America, there isn´t the Republican States of America. There is the UNITED STATES OF AMERICA!"

Hann endurtekur þessa setningu hvað eftir annað. Gerði það t.d. í sigurræðu í gær. Kaninn virðist samt kunna afskaplega vel við þessar slagorðaræður. Obama hafði t.d. varla lokið við setninguna í gær þegar allt ætlaði um koll að keyra meðal stuðningsmanna hans sem hrópuðu USA, USA, USA ..., eins og þeir væru að styðja landsliðið sitt á kappleik.

Okkur Linda fannst þetta svo fyndið að við áttum erfitt með okkur.

Edda.


Kosningar o.fl.

Það varð víst eitthvað lítið úr helgarbloggfærslunni sem ég lofaði upp í ermina á mér. Í staðinn fyrir að blogga skelltum við okkur nefnilega í bæinn og gerðum alls kyns kjarakaup. Ég fann mér m.a. jakka (2 stk!) í staðinn fyrir þann sem ég týndi/var stolið á Hawaii.

Annars er hrikalega spennandi dagur framundan enda forvalskosningar hjá Repúblikönum og Demókrötum í yfir 20 fylkjum. Það er nokkuð ljóst að í kvöld verður poppað og fylgst með úrslitum á einhverri sjónvarpsstöðinni. Ég er nokkuð viss um að Obama taki þetta þó að ég myndi frekar vilja sjá Hillary sem næsta USA-íska forseta. Hérna í Berkeley virðist Obama t.d. hafa vinninginn, meira að segja hjá eldri konum - sem mér finnst furðulegt. Obama er samt mikill ræðuskörungur og virðist þess vegna ná að sópa til sín fullt af atkvæðum. Verst að flest af því sem hann segir er innihaldslaust blaður um the United Stated of America, the Constitution og hina margumræddu Founding Fathers. Það er ótrúlegt hvað Bandaríkjamenn elska þessar klisjur. Má ég þá frekar biðja um kvenskörunginn Hillary (þó að henni sé fullannt um Ísrael)!

Á Íslandi eru svo ekki síður mismunandi kosningar á morgun og hinn þegar kosið til Stúdenta- og Háskólaráðs. Þá er auðvitað um að gera og þakka Dagnýju systur (og fráfarandi formanni Stúdentaráðs) fyrir einstaklega vel unnin störf í þágu stúdenta síðastliðið ár og merkja X við Röskvuna góðu.

Edda.


Við erum á lífi...

Bloggleysi síðustu viku gefur kannski í skyn að ég hafi verið í miklu óstuði. Svo var nú samt aldeilis ekki heldur er tímaskorti sökum anna um að kenna. Síðustu þrjá daga hef ég svo verið á ráðstefnu í Stanford en hún kláraðist í dag, sem betur fer. Ég var komin með alveg nóg af fjögurra tíma lestarferðum á dag: Tveir tímar til Stanford og aðrir tveir til baka.

Ég var líka hrikalega óheppin í lestarferðunum. Ef alltof málglaður sessunautur settist ekki hjá mér þá bilaði lestin eða þá að hún keyrði framhjá stoppustöðinni minni. Sumsé mikið grín og mikið gaman hjá mér undanfarna daga, eða þannig.

Nú er bara einn dagur eftir af törninni miklu og því lofa ég eiturhressri bloggfærslu ekki seinna en á laugardag.

Edda

P.S. Sólin sýndi sig í dag í fyrsta skiptið í rúma viku. Annars er búið að rigna út í eitt.


Komin heim

Þá erum við komin heim eftir ansi ljúft frí á Hawaii. Núna eru bara 38 dagar eftir af dvöl okkar hérna í Berkeley og það er nokkuð ljóst að lítið verður um afslöppun þangað til við komum til Íslands. Framundan er t.a.m. ráðstefna í Stanford, fyrirlestur á LBL og svo mætti lengi telja. Höfum þetta ekki lengra að sinni. Á víst að vera mætt í vinnu snemma í fyrramálið svo það er best að bomba sér í háttinn. Ef ég verð í stuði lítur seinni hluti jólaferðasögunnar líklega dagsins ljós í vikunni.

Edda 


Aloha

Nú höfum við verið á Hawaii í þrjá daga og óhætt að segja að þessi staður er sérdeilis prýðilegur. Hótelið sem við erum á er alger snilld, frábærlega staðsett með einkaströnd alveg við Kyrrahafið.

Hótelið okkar

 Lágum á bekkjunum næst ströndinni í dag (sem var verulega hressandi).

Við höfum tekið því nokkuð rólega undanfarna daga og er stefnan sett á að hafa það frekar náðugt. Ég er þó búinn að panta að skjóta úr nokkrum byssum (meðal annars AK-47), fara í fjórhjólatorfærur og skella mér á sjósleða.

 Tökum bíl á morgun og ætlum að keyra um eyjuna eins og engin sé morgundagurinn.

Vonandi hafið þið það gott í blíðunni heima.

Lindi


Árið

Við erum orðin ein eftir í kotinu eftir heimsókn frá mömmu, pabba, Dagnýju, Auði og Örnu. Það var æðislegt að fá þau í heimsókn og ekki laust við að heimþrá sé með meira móti en gengur og gerist eftir að þau kvöddu. Við tókum okkur svo margt fyrir hendur að lágmark fimm langar bloggfærslur þyrfti til að gera því almennileg skil. Þess vegna verður bara stiklað á því helsta í þessari færslu. 

Fjölskyldan kom þann 21. desember og fóru fyrstu dagarnir í skoða San Francisco ásamt tilheyrandi fatakaupum. Aðfangadagur var síðan með óvenjulegra móti þar sem við fórum á balletsýningu klukkan 4 og út að borða eftir hana. Veitingastaðurinn sem við borðuðum á var mjög góður en stærðarhlutföll milli rétta voru óvenjuleg svo vægt sé til orða tekið. Forréttir og aðalréttir voru frekar litlir og nettir en eftirréttirnir fáránlega stórir. Dagný og Lindi pöntuðu sér t.d. creme brulee í eftirrétt og haldiði að þau hafi ekki fengið 3 stk hvort!

 Go9ers

Þorláksmessustemning á vellinum. Go Niners! 

Jóladagur var náðugur hjá okkur (fyrir utan þriggja tíma traffic-jam á leið að Golden Gate brúnni) enda var planið að leggja í hann til Las Vegas klukkan sex að morgni annars í jólum. Því miður gekk það plan ekki alveg upp þar sem ferðatösku Dagnýjar og Auðar var stolið af lóðinni okkar örfáum mínútum áður en við ætluðum að leggja af stað (hún var fyrir innan læst hlið og allt). Við töfðumst því skiljanlega aðeins enda þurfti að hringja á lögguna og tilkynna þjófnaðinn. Ekkert hefur spurst til töskunnar né innihaldsins. 

Ferðalagið til Las Vegas tók 11 tíma og eftirminnilegastu hlutar þess eru án efa hrikalegur sandstormur og ógeðslegasta prumpfýla í heimi. Prumpufýlan braut sér leið inn í bílinn þegar við keyrpum fram hjá kúabúi með lágmark 5 þúsund beljum og tilheyrandi metanskýi. Við lentum svo í sandstorminum á leið okkar um eyðimörkina. Þar var skyggni án gríns að hámarki 2 metrar og smámjökuðumst við áfram á 5 km/klst. Pabbi ætlaði að vera sniðugur og taka mynd út um bílrúðuna en það fór ekki betur en svo en að bíllinn fylltist af sandi LoL. Um leið og við komum til Las Vegas lá leið okkar í búðir enda stóðu Dagný og Auður uppi fatalausar og allslausar, þökk sé flækingnum sem stal töskunni þeirra.

 Prumpufylan

Dagný dó næstum því úr beljufýlu. 

Arna hitti okkur í Las Vegas og voru það vægast sagt miklir fagnaðarfundir. Annars gerðum við svo sem ekki mikið af okkur í Vegas fyrir utan að skoða okkur um, fara á Phantom of the Opera og versla. Lindi og Arna unnu reyndar slatta í Black Jack.

 Vegas

Stuð á Ceasars Palace.
(Við gistum samt á The Signature @ MGM Grand sem er geggjað hótel!) 

Næst lá leið okkar til L.A. þar sem við gistum á hrikalega slöppu hóteli en við létum okkur hafa það þar sem varla er hægt að fá gistingu á betri stað í Hollywood. Hótelið var nefnilega staðsett beint aftan við Kodak Theater á Hollywood Boulevard.

 

Lindi og Edda við Hollywood skiltið

 

 Hjónin í Hollywood.

 Við skoðuðum okkur að sjálfsögðu um í Hollywood, keyrðum líka um Beverly Hills og Santa Monica og fórum í Universal Studios. Við rákumst meira að segja á celeb á Rodeo Drive. Enga aðra en Paris Hilton! Hún stóð fyrir framan diner og kallaði einhverja gellu "a fucking retard" í símann sinn. Klárlega hápunktur ferðarinnar Wink.

 Wysteria-Lane

Auður og Arna aðþrengdar á Wisteria Lane.

En nú nennum við ekki að skrifa meira í bili. Bíðið spennt eftir ferðasögu frá San Diego og Solvang (danskur bær rétt utan við Santa Barbara). Óveður, rafmagnsleysi og endalaus óheppni gætu einnig komið við sögu þá ef við verðum í bloggstuði.

Edda og Lindi.

P.S. Við förum til Hawaii á morgun.


Gleðileg jól

Jólin eru með skrýtnasta móti hjá okkur þetta árið. Þorláksmessu var eytt í blíðskaparveðri á NFL leik þar sem við sáum San Francisco 49ers vinna Tampa Bay Bucks. Í dag ætlum við svo að vera í Berkeley fram að miðjum degi en þá förum við á Hnotubrjótinn hjá San Francisco balletnum. Seinna í kvöld snæðum við jólamatinn svo á fínum veitingastað í Fisherman´s Wharf. 

Mamma, pabbi, Dagný og Auður mættu á svæðið síðastliðinn föstudag og mikið hrikalega var gaman að sjá þau. Við erum búin að vera dugleg að sýna þeim borgina og þau eru líka búin að kíkja svolítið í búðir (sumir meira en aðrir þó).

Á annan í jólum leggjum við í hann í ferðalagið mikla um Kaliforníu og hittum Örnu skvísu í Las Vegas. Ég hlakka mikið til að hitta hana.

Annars óskum við ykkur öllum hamingju og gleði yfir hátíðarnar. Hafið það sem allra best, lömbin mín. Edda. 


Jólaboð o.fl.

Þá er AGU ráðstefnan búin og aldeilis farið að styttast í jólaheimsóknina miklu. Helgin fór að miklu leyti í að gera íbúðina heimsóknarvænni. Við þrifum, jólaskreyttum og fengum lánað leirtau og stóla svo gestirnir svelti nú ekki standandi hjá okkur. Næsti föstudagur mætti þess vegna renna upp sem fyrst núna þegar við erum reiðubúin að taka á móti gestum.

Við fórum í tvö jólaboð í síðustu viku hjá leigusalanum okkar og voru þau ansi fróðleg. Boðsgestirnir höfðu allir sem einn fjárfest í dagatölum sem telja niður dagana þar til Bush lætur af embætti. Deildar meiningar voru samt um hvort Clinton eða Giuliani myndu vinna næstu kosningar. Við blönduðum okkur ekki mjög mikið í þær umræður en svöruðum þeim mun fleiri spurningum um Ísland (þ.á.m. um dýralíf við landnám, Íslendingasögurnar og Snorra-Eddu en einkum um jarðhita og íslenska markaðinn). Ég sá auðvitað að megninu til um jarðhitafræðsluna en Lindi sá um markaðsmálin Wink.

Lindi lenti í djúpum samræðum við einn gestanna um áhrifin af lækkandi gengi dollarans. Lindi vildi meina að lægra gengi hefði jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuð Bandaríkjanna. Gesturinn var sammála því en á spýtunni hékk þó að nú um stundir væri lítið sem ekkert framleitt í Bandaríkjunum heldur hefði öll framleiðsla verið færð til Kína. Og "punchline-ið" hans var nokkuð gott:

"This is America, the only thing we make are lawsuits and hamburgers!"

Að lokum viljum við af einskærri væntumþykju benda lesendum á að fá sér aldrei flan, sama hversu girnilegt það lítur út fyrir að vera. Við gerðum þau hrikalegu mistök að smakka flan í einu jólaboðinu og höfum aldrei átt jafnerfitt með að koma neinu niður. Áferðin var eins og bakaður sóli og bragðið ólýsanlegt!

Góðar stundir,  Edda.


Klipping og NBA

Einn af ókostunum við að flytja búferlum milli landa er að flestir meðaljónar neyðast til að skilja klipparann sinn eftir heima. Við höfðum bæði hugsað okkur að treina það að fara í klippingu þar til við komum heim en í síðustu viku fengum við nóg af því að vera með lubba. Við leituðum því uppi vinsæla hárgreiðslustofu með hjálp Google og pöntuðum tíma. Í gær (sunnudag) var svo komið að klippingunni og vorum nett stressuð yfir að útkoman yrði ekki sem best. Ekki nóg með að við erum engan veginn með hair-salon-lingoið á hreinu heldur er alltaf svolítið óþægilegt að fara í klippingu hjá einhverjum bláókunnugum (a.m.k. finnst mér það). 

Lindi byrjaði á því að fá nett áfall þegar á móti honum tók ansi skrautlegur strákur um tvítugt sem hann hélt að ætti að klippa sig. Hann var í neonfjólubláum skinny gallabuxum, málaður í framan og með rautt og svart hár hægra megin á höfðinu en snoðaður hinum megin Undecided. Flaming gay auðvitað. Seinna kom í ljós að hann var þó bara lærlingur og öllu venjulegri strákur klippti hann.

Ég fór svo í klippingu og litun hjá filippseyskri stelpu sem var svo lágvaxin að á köflum þurfti ég að hálfvegis liggja í stólnum til að hún gæti klippt mig. Útkoman var engu að síður mjög fín hjá okkur báðum en þetta tók dággóða stund - tæpan klukkutíma hjá Linda og þrjá og hálfan tíma hjá mér!

Á morgun er svo merkisdagur hjá okkur en þá skellum við okkur á fyrsta NBA leikinn okkar Happy. Golden State Warriors (frá Oakland) taka þá á móti meisturum síðasta árs, San Antonio Spurs. Við erum ekki í nokkrum vafa um að þetta verður geggjað stuð.

Edda. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband