2.11.2007 | 20:19
Hnuss...
Hvað á það eiginlega að fyrirstilla að hækka íbúðalánavexti upp í 6,45% nokkrum mánuðum áður en við hyggjum á okkar fyrstu íbúðarkaup?!? Okkur er síður en svo skemmt.
Kannski það hafi verið mistök að segja leigusamningnum á Stúdentagörðum upp áður en við fórum út. Ef vextirnir lækka ekki á næstu mánuðum sitja mamma og pabbi kannski uppi með okkur í laaaaaangan tíma.
Föstudagskveðja,
Edda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.11.2007 | 00:33
Cravings ...
Við fórum á Töfraflautuna í gær og skemmtum okkur konunglega. Uppsetningin var tær snilld og margfalt betri en sú sem ég sá í íslensku óperunni árið 2001. Kaninn átti á tíðum erfitt með sig og hópur áhorfenda greip ótt og títt fram í fyrir söngvum með klappi og hrópum. Það var frekar böggandi en heilt yfir erum við mjög sátt og erum strax farin að huga að því hvaða ópera verður næst fyrir valinu.
Nú eru rétt um tveir mánuðir síðan við yfirgáfum Klakann og héldum á vit ævintýranna (og náms) í Berkeley. Söknuður eftir undarlegustu hlutum er því farinn að gera vart við sig. Ég sakna þess m.a. að geta ekki keypt mér malt úti í búð (sem er ansi furðulegt því ég drekk yfirleitt aldrei malt á Íslandi). Ég væri líka mikið til í Selfossflatkökur, Lindi gæfi mikið fyrir eina kókómjólk og bæði gætum við auðveldlega torgað einni pabba pizzu . Mest af öllu söknum við þó íslenska fisksins og hitaveitu.
Edda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.10.2007 | 03:54
Jörð skelfur
Rétt í þessu lék hér allt á reiðiskjálfi þegar jarðskjálfti gekk yfir. Hann var um 5,6 á Richterskala og upptök hans voru í sunnanverðum flóanum. Við fundum hann bæði afskaplega vel og gott ef sama hugsunin hafi ekki flogið í gegnum hugann hjá okkur báðum á meðan skjálftinn gekk yfir: Vonandi verður þetta ekki stór skjálfti - það verður bara bögg. Árið 1989 varð einn slíkur og þá hrundi m.a. hluti af Bay Bridge brúnni ásamt slatta af húsum sem var víst byggður á lélegri landfyllingu. Okkur varð að óskinni... í bili.
Edda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2007 | 02:42
Nýliðnir dagar
Rólyndishelgi er að baki. Planið var að fara út að borða á Asia de Cuba sem ku vera ansi hipp og kúl staður sem Philippe Starck hannaði. Það klikkaði samt en úr því verður bætt næsta föstudag kl. 19:30 þegar við eigum pantað borð þar. Í sárabætur skelltum við okkur á the Cheesecake factory á efstu hæð Macy´s við Union Square. Staðurinn kom skemmtilega á óvart. Við bjuggumst við að þar væri sveitt Hard Rock túristastemning en þannig var það aldeilis ekki. Maturinn var dúndurgóður (og ódýr) og ostakakan í eftirrétt var to-die-for. Ég get samt ekki neitað því að það hafi komið mér dálítið á óvart að það var búið að jólaskreyta allt í Macy´s. Það er október ennþá!
Í gær var það svo bíó, heillin. Gone baby gone varð fyrir valinu og úff hvað það er slæm mynd. Ég vara ykkur eindregið við því að fara á hana.
Halloween er á miðvikudaginn og þá förum við inn í San Francisco því við eigum miða í óperuna (listasnobbið er að koma upp í okkur). Ég var einmitt stödd í San Francisco á Halloween fyrir ári og það var ansi skrautlegt. Hommarnir töpuðu sér nokkrir hverjir algjörlega í búningavali. Ætli það verði ekki svipað núna.
Lindi útbjó vídjóklippu af Yosemite ferðalaginu stórskemmtilega. Njótið.
Edda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.10.2007 | 01:36
MLIS mamma
Í dag er merkilegur dagur því elsku besta mamma mín útskrifast með MLIS próf í Bókasafns- og upplýsingafræði frá HÍ. Það er alls ekki á færi allra fimmtugra að skella sér í meistaranám en mamma átti ekki í vandræðum með það. Hún stóð sig auðvitað með prýði (like mother, like daughter ...) og útskrifast með láði. Til hamingju með daginn mamma . Við fögnum áfanganum úr fjarska og förum út að borða á Asia de Cuba.
P.S. Við óskum auðvitað öðrum sem útskrifast í dag líka til hamingju með daginn. Upp í hugann koma Rakel og Sigrún ofurskvísur. Vonandi gleymi ég engum.
Edda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.10.2007 | 05:24
Yosemite
Helgin nálgast óðfluga og því er ekki seinna vænna en að skrifa ferðasögu síðustu helgar. Við leigðum okkur sumsé bíl (enn einu sinni) og keyrðum á vit ævintýranna í Yosemite þjóðgarðinum (framburður er jósimmetí en ekki jósmæt - hvorugt okkar klikkaði á því ... ahem... ).
Garðurinn er staðsettur um mitt austanvert Kaliforníufylki og tók ferðalagið þangað um fjóra tíma. Við vorum ekki komin á leiðarenda fyrr en að ganga níu og gerðum því lítið annað en að slappa af á hótelherberginu á föstudagskvöldinu. Við áttum í litlum vandræðum með að slaka vel á þar sem herbergið skartaði risa nuddbaðkari sem hægt var að horfa á sjónvarpið úr .
Á laugardeginum hófst svo skoðunarferðin okkar um þjóðgarðinn og urðum við ekki fyrir vonbrigðum. Landslagið var ægifagurt eins og meðfylgjandi myndir bera með sér. Dagurinn fór í að keyra og ganga um garðinn og rákumst við m.a. á bamba en enga birni, þrátt fyrir að þeir séu þekktir fyrir að gera ferðamönnum lífið leitt.
Við tókum sunnudaginn snemma því við áttum langan dag fyrir höndum. Við byrjuðum á að keyra þvert í gegnum Yosemite og fórum út úr garðinum í rúmlega 10 þúsund feta (3 km) hæð. Þaðan lá leið okkar norður meðfram mörkum Nevada í draugabæinn Bodie sem er stærsti draugabær Kaliforníu. Bærinn iðaði af lífi á gullgrafaraárunum enda í námunda við gjöfular gullnámur. Hann var alræmdur fyrir háa glæpatíðni og er lýst sem "one of the wildest and most lawless town in the West". Til marks um það var áttunda boðorðinu - "thou shall not steal" - snemma stolið af altari kirkju bæjarins. Okkur þótti mjög gaman að skoða Bodie en skiljum vel að íbúar hafi yfirgefið bæinn að loknu gullæðinu. Hitastigið sveiflast nefnilega um tugi gráða yfir daginn, frosthörkur eru miklar á veturna og sumur hrikalega heit.
Frá Bodie keyrðum við heim á leið (um 5 tíma akstur) og lentum að sjálfsögðu í nokkrum massívum umferðarteppum á leiðinni.
Stuðkveðjur á klakann...
... Edda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.10.2007 | 04:28
Hið glæsilega jólaferðalag
Eftir tugi klukkustunda á Google, Tripadvisor, Expedia og fleiri síðum höfum við Edda loksins pantað hótel og bíl fyrir fjölskylduferðalagið mikla frá 26. desember - 2. janúar. Ákveðið hefur verið að á milli staða verður ekið á forlátum Lincoln Navigator, sem er óneitanlega svívirðilega glæsileg sjálfrennireið.
Hið glæsilega jólaferðalag verður eitthvað á þessa leið:
26.-28. des verðum við í Las Vegas og gistum í forkunnarveglegum svítum á Signature at MGM Grand hótelinu.
28.-30. des verðum við í Hollywood og gistum á Hollywood Orchid Suites sem þykir einstaklega vel staðsett og sjarmerandi.
30.-1. jan verðum við í sólbaði í San Diego og gistum á Sheraton La Jolla, sem er stórskemmtilegt hótel með glæsilegri sundlaug.
1. og 2. janúar keyrum við meðfram vesturströndinni aftur til San Francisco en við höfum ekki enn ákveðið hvar við gistum á leiðinni. Eitt er þó víst að sá áningarstaður verður sérlega hressandi.
Annars er allt hressandi að frétta. Við Edda erum að fara í óperuna í næstu viku á Töfraflautuna og síðan höfum við pantað miða á balletsýningu á aðfangadag. Það er því ekki hægt að segja að við hjónin styðjum ekki bandaríska listamenn.
Lindi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.10.2007 | 02:19
Ameríka er engri lík
Ég hringdi í Avis til að panta bíl yfir helgina þar sem við Edda ætlum að taka stóran hring um norðurhluta Kaliforníu næstu þrjá daga. Eftir að ég var búinn að panta var mér sagt að ég væri "eligable for a free three day hotel accommodation". Korteri seinna hafði ég fengið gistingu á hóteli frítt í tvo daga, helling af allskonar "couponum" fyrir hótelum, bílaleigum, bensíni, morgunmat og ég veit ekki hvað og hvað FRÍTT! Ví, voða gaman. Hængurinn er hins vegar sá að við Edda erum búin að lofa okkur í 120 mínútna "one-on-one timeshare pitch". Það verður meira en lítið fróðlegt. (Buy this house! NOOOO!!!!) Lofum allavega að láta vita ef við verðum óvart "homeowners" eftir þá ferð.
Við höfum ekki enn vanist ýmsum siðum hérna í Bandaríkjunum. Ef maður gengur t.a.m. fram hjá starfsfólki í verslunum segja allir "Hi, how are you doing today sir/mam". Þessi kveðja er nokkuð lengri en hin íslenska kveðja "daginn" og yfirleitt er maður löngu kominn framhjá starfsmanninum þegar hann hefur lokið sér af. Hvað á maður eiginlega að gera? Snúa sér við og segja "Im doing good, and how about you?". Hef ekki tíma í það.
Mikið er um að ungir blökkumenn haldi sig í hópum og eru þeir allir með buxurnar á hælunum, í fimm peysum og þremur úlpum, með keðjur og höfuðklúta. Einnig hef ég tekið eftir að það virðist vera komið í tísku meðal þeirra að tala í gemmsann á speaker, baðandi út símanum í allar áttir. Furðulegt.
Sumir eru óendanlega smeðjulegir og eitt sinn var ég næstum búinn að æla yfir eina konu sökum smeðjuskaps! Ennfremur virðist fólk aldrei getað sagt hlutina hreint út, heldur fara eins og kettir í kringum heitann graut. Mér er víst óheimilt að fara nánar út í það.
Vonandi gerist eitthvað hressandi í ferðalaginu svo Edda geti bloggað um það.
Lindi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.10.2007 | 03:32
Merkisdagur hjá doktornum...
Dagurinn í dag var merkilegur fyrir þær sakir að fyrstu alvöru niðurstöðurnar úr doktorsnáminu mínu litu dagsins ljós. Mig var farið að lengja ansi mikið eftir þeim enda búin að vinna að verkefninu í rúmt ár núna. En þolinmæði er víst dyggð í vísindum - verst að ég fékk ekki mjög stóran stóran skammt í vöggugjöf.
Nú er bara að krossleggja fingur og vona að niðurstöðurnar verði ekki hakkaðar í of mikið spað á kynningarfundinum sem verður á morgun.
Peace. Edda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.10.2007 | 03:54
Af undrum netsins og trjábúum
Mikið afskaplega höfum við verið þakklát fyrir internetið síðustu vikuna. Við höfum fylgst spennt með vefútsendingum sjónvarpsstöðvanna enda ekki á hverjum degi sem meirihlutinn í borginni springur. Tækninni fleygir fram með ótrúlegum hraða. Fyrir þremur árum, þegar ég bjó í Danmörku, var t.a.m. ekki hægt að horfa á fréttir í gegnum netið. Lindi þurfti þess vegna að lýsa merkilegum fréttaútsendingum (eins og þegar Ólafur Ragnar neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin) í gegnum Skype því fréttafíkillinn ég vildi fá þær beint í æð.
Af okkur er annars lítið að frétta. Helginni var að mestu eytt í afslöppun en við kíktum þó á e.k. street festival sem var haldið í Berkeley í dag. Við erum alltaf jafnhissa yfir magningu af furðufuglum sem virðast búa hér. Eitthvað af uppgjafahippum, slatti af rónum og flækingum og heil hrúga af umhverfis- og lífrænt þenkjandi liði.
Almenningur í Berkeley stendur líka nokkuð fast á sínu (eitthvað sem tíðkast ekki á Íslandi, að undanskilinni síðustu viku). T.d. er hluti íbúa óánægður með plön borgarinnar um að fjarlægja skuli nokkur gömul eikartré til að hægt sé að stækka íþróttahús háskólans. Til að mótmæla framkvæmdinni klifraði lítill hópur fólks upp í tréin í janúar og ekki farið niður úr þeim síðan! Já, þið lásuð rétt - það hefur búið í trjám í 10 mánuði! Fólkið kemst nú hvorki lönd né strönd því það er búið að girða tréin af - líklega til að gera áhangendum hópsins erfiðara fyrir að koma mat og helstu nauðsynjum til trjábúanna. Hvernig hægt er að búa í tré í 10 mánuði er ofar mínum skilningi og ég vil t.d. ekki vita hvernig íbúarnir ganga örna sinna. En þessi vanþekking mín kristallar kannski muninn á Íslendingi og sönnum Berkeleybúa. Góðar stundir.
Edda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)