Hó, hó, hó

Fátt markvert hefur drifið á daga okkar upp á síðkastið (eins og snarlækkandi bloggfærslutíðni ber með sér). Hápunktur síðustu helgar var samt klárlega Madame Butterfly í óperunni. Sýningin var frábær og við skemmtum okkur auðvitað konunglega, listunnendurnir sem við erum.

Síðustu dagar hafa verið sérstaklega óspennandi - við vöknum, vinnum, vinnum, vinnum svo aðeins meira og förum að sofa. Sumsé, með eindæmum spennandi og fjölbreytt líf.

Næsta vika verður aðeins viðburðaríkari (a.m.k. hjá mér) því þá fer ég á árlegu AGU ráðstefnuna í San Francisco. Um fimmtánþúsund manns mæta þangað sem mér finnst svolítið yfirþyrmandi en þetta verður vonandi bara gaman. Ég gluggaði aðeins í dagskrá ráðstefnunnar í dag og það verður að segjast að hún er svo flókin að meðalgreind dugar tæplega til að finna út úr henni. Ég er þó nokkurn veginn búin að ákveða hvaða fyrirlestra ég ætla að mæta á. Mér skilst að slatti af Íslendingum sé væntanlegur á ráðstefnuna svo hver veit nema að ég rekist á einn slíkan í allri mannmergðinni. Það verður þá í fyrsta skiptið síðan á flugvellinum í Boston.

Annars fer aldeilis að styttast í jólin. Ég er samt í núll jólaskapi. Það er bara einhvern veginn ekki hægt að komast í jólaskap í sól og 15-20 stiga hita fyrir utan að hér vantar allt jólaskraut í glugga og á götur Undecided.

Edda. 


Vegasvídjó

Tók mig til og henti myndskeiðum saman á mettíma í kvöld.

 

 

Vegas er snilldarstaður og klárt að ég stefni að því að kíkja þangað reglulega í framtíðinni. 

Lindi


Windows Vista er rusl

Ég kláraði að klippa myndbandið frá Vegas ferðinni í gær og við Edda vorum að skoða lokaútkomuna þegar tölvan hrundi. Eftir að hafa endurræst hana kom í ljós að auto-save hafði ekki virkað sem skyldi og meirihlutinn horfinn. Eftir mikinn pirring byrjaði ég aftur að klippa í dag en hálftíma síðar hrundi tölvan aftur og allt horfið enn eina ferðina. Það er því óljóst hvort þetta forláta myndband muni líta dagsins ljós. Næsta tölva sem ég kaupi mér verður pottþétt Makki. Bill Gates og félagar geta farið í ra*****!!!

 

Vista rusl

Lindi pirraði


Þakkargjörðarhelgin

Við erum ekki búin að vera þau duglegustu í blogginu upp á síðkastið en bætum úr því hér með. Síðasta helgi var með eindæmum notaleg enda var hún fjögurra daga löng. Á fimmtudaginn var Þakkargjörðarhátíðin og héldum við upp á hana með því að skella okkur á veitingastað í San Francisco. Þar fengum við kalkún, yams og annað sem fylgir hefðbundinni Þakkargjörðarmáltíð. Því miður var maturinn bara í meðallagi og ekki komst ekki í hálfkvisti við áramótakalkúninn heima.

Á föstudaginn rann svo "Black Friday" upp en þá rífur Kaninn sig upp fyrir allar aldir og verslar á útsölum eins og enginn sé morgunagurinn. Við vildum ekki vera útundan svo við fórum auðvitað inn í San Fransisco en samt ekki fyrr en um níu leytið (flestar búðir opnuðu milli fjögur og fimm AM). Mannhafið í miðborginni var þvílíkt að við höfum aldrei séð annað eins. Gangstéttarnar voru troðfullar af fólki með ferðatöskur úttroðnar af útsöluvarningi og löggan var á svæðinu til að stjórna gangandi umferð. Frekar steikt allt saman.

Af okkur er annars allt fínt að frétta. Við vorum eiginlega búin að ákveða að framlengja dvölina hérna um einn mánuð en það gekk því miður ekki upp. Aðrir leigjendur flytja nefnilega inn í íbúðina okkar í byrjun mars og við nennum ekki að standa í flutningum fyrir svona stuttan tíma.

Bæ í bili. Edda.


Frú ráðherfa

Ég sé að Steinunn Valdís óskar eftir því að orðinu ráðherra verði skipt út fyrir nýyrði sem hentar betur báðum kynjum. Einhver húmoristi stakk upp á orðinu ráðherfa. Mér finnst það fyndið. Að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér í umræðuna enda hef ég um nóg annað að hugsa þessa dagana.

Þakkargjörðarhátíðin nálgast nú óðfluga. Bara einn vinnudagur eftir (miðvikudagur) og svo er fjögurra daga helgi staðreynd. Við ætlum að vinna eitthvað yfir helgina en kíkjum ábyggilega út að borða á fimmtudaginn til að bragða á alvöru sterakalkúna og sykraðri kartöflumús. Nammi namm.

Á föstudaginn ætla ég að eiga frí og kíkja á útsölur sem byrja þá fyrir allar aldir með pompi og prakt. Ég vona að mér takist að plata Linda með því mig vantar burðardýr. En talandi um útsölur, ég gleymdi að monta mig af kjarakaupunum sem ég gerði í Las Vegas: Calvin Klein vetrarkápa á 50% afslætti og greiddi ég rétt um 13 þúsund ISK fyrir hana. Eruð þið ekki annars hress í okrinu heima?

Edda


Vegas ferðin í máli og myndum

Þá er komið að því sem þið hafið öll beðið eftir, lömbin mín. Ferðasagan frá Vegas. 

Við lögðum í hann eldsnemma síðastliðinn miðvikudag, röltum út á lestarstöð og tókum BART-inn út á flugvöll. Flugið til Vegas tók rétt rúman klukkutíma og við vorum mætt á svæðið um 10 leytið. Við vorum með bílaleigubíl fyrsta daginn og eftir að hafa villst aðeins af leið cruisuðum við um Strip-ið (aðalgatan á svæðinu fyrir fáfróða lesendur) í blæjubíl og glampandi sól. Það var ótrúlega súrrealískt að vera allt í einu stödd í Las Vegas og sjá allar byggingarnar og furðulegheitin þar með eigin augum. Við vöndumst því nú samt smám saman.

Edda við bílinn góða 

Miðvikudagurinn fór sem sagt í að keyra um þangað til við gátum tékkað okkur inn á Luxor hótelið. En þá hófust vandræðin. Okkur hafði verið sagt að undir engum kringumstæðum gætum við tékkað okkur inn fyrir þrjú en svo þegar við mættum á svæðið var klárt að það var eintóm vitleysa. Fjöldi manns hafði tékkað sig inn fyrr um daginn og höfðu öll herbergi af gerðinni sem við pöntuðum fyllst og okkur var því troðið í glatað herbergi. Við vorum ekki alls kostar sátt við það og báðum um að fá þetta leiðrétt og áttum að fá rétt herbergi á hádegi daginn eftir. Það gekk ekki eftir og við þurftum sífellt að bíða klukkutíma lengur en gert hafði verið ráð fyrir og þannig gekk það allan daginn.

Luxor hótelið slaka

Hluti fimmtudagsins fór þannig í vaskinn því við fengum ekki herbergið fyrr en klukkan fimm og höfðum þurft að bíða á hótelinu allan daginn. Við vorum frekar pirruð yfir þessu, kvörtuðum og lentum á einhverjum óhæfasta yfirmanni sem fyrirfinnst. Hann kenndi okkur um allt sem hafði misfarist með fáránlegum rökum og var hinn dónalegasti. Þá gáfumst við upp, ákváðum að standa ekki í þessum monkey bisness lengur og færðum okkur yfir á New York, New York hótelið daginn eftir. Við sáum sko ekki eftir þeirri ákvörðun þar sem New York hótelið var mun betur staðsett en Luxor og herbergið okkar þar miklu notalegra.

 

Frelsisstyttan

En nóg um það. Við brölluðum margt og mikið þessa fimm daga sem við dvöldum í Las Vegas. Fyrst og fremst löbbuðum við þó. Við löbbuðum svo mikið að ég neyddist til að fjárfesta í nýjum skóm. Vegalendirnar þarna eru nefnilega lygilega langar og í hitinn gerði það að verkum að eftir nokkra klukkutíma labb voru fæturnir við suðumark.

 

Sigurboginn

 

Við röltum sumsé á milli hótela sem sum hver eru ansi skrautleg. Venetian hótelið kostaði t.d. meira en Kárahnjúkavirkjun. Það er byggt í ítölskum stíl og inni í því er eftirlíking af göngugötum Feneyja með síkjum og alles. Gestum býðst svo að fara í rómantíska siglingu á gondólum um síkin undir ómfögrum söng gondólaræðara. Við pössuðum á það enda með eindæmum rómantísk hvort eð er.

 Gondólasíkið

Önnur hótel voru álíka ýkt. Sigurbogi og Eiffel turn í um 66% stærð fyrir framan Paris hótelið, frelsisstytta fyrir framan New York hótelið, Colosseum, Trójuhestur, guðalíkneski o.fl. á Ceasars Palace og svo mætti lengi telja. Innan í öllum hótelunum voru svo göngugötur með ógrynni verslana og veitingastaða.

 

 Eiffel turninn

Á rölti okkar um hótelin tékkuðum við líka á spilavítunum og Lindi fjárfesti í einum $1 dollara spilapeningi á hverjum stað. Við gömbluðum auðvitað eitthvað. Lindi var samt aðallega í póker en ég tékkaði á nokkrum spilakössum. Lindi tók sig líka til og tók þátt í 117 manna pókermóti og haldiði að kallinn hafi ekki bara lent í 14. sæti. Geri aðrir betur.

 

Lindi í pókermótinu

 

Það væsti ekki um okkur á kvöldin því við skelltum okkur á þrjár sýningar. Upphaflega ætluðum við bara að fara á Cirque de Soleil - Mystére en við fengum svo helmings afslátt af miðum á Copperfield og Carrot Top svo við skelltum okkur á þær líka. Copperfield var slakastur (kannski FBI rannsókn hafi eitthvað verið að valda honum hugarangri) en Carrot Top og Mystére algjört æði og hvetjum við alla sem eiga leið um Las Vegas að tékka á þeim.

 

Lindi við MGM hótelið

 

Heilt yfir erum við afskaplega ánægð með ferðina og erum fullviss um að mamma, pabbi, Dagný, Auður og Arna eigi eftir að skemmta sér konunglega þegar við kíkjum þangað með þeim milli jóla og nýárs.

Wynn

Vídjó af ferðinni fær að bíða betri tíma en mig grunar að Lindi útbúi það í vikunni. Edda.


Jæja,

þá erum við komin heim eftir frábæra ferð til Las Vegas. Við nutum lífsins í botn og skemmtum okkur konunglega í spilavítum, skoðunarferðum og þremur sýningum: Carrot Top, David Copperfield og Cirque de Soleil - Mystere.

Ferðaplön breyttust hins vegar óvænt um miðbik dvalarinnar þegar við gáfumst upp á endalausum dónaskap starfsfólks Luxor hótelsins og fluttum okkur yfir á New York, New York hótelið. Meira um það síðar þegar ég hef orku til að skrifa meira.

 DSC02009

Farin í háttinn.  Edda


Viva Las Vegas

Við Edda munum skella okkur til Vegas á morgun og verðum þar fram á sunnudagskvöld. Óhætt að segja að mikil tilhlökkun er farin að gera vart við sig þar sem ég bjóst svosem alveg eins við því að fara aldrei þangað á minni lífsleið. Ferðin hefur verið skipulögð að einhverju leiti, verðum með bíl fyrsta daginn, förum á Cirque du Soleil's Mystére á laugardeginum og ætlum einnig að reyna að kíkja á einhverja sýningu á fimmtudeginum. Síðan er snillingurinn Kevin James víst með uppistand á föstudeginum og aldrei að vita nema maður skelli sér á það.

 

Las Vegas Baby!

 

Eins og flestir átta sig á eru fjárhættuspil órjúfanlegur hluti af Vegas-upplifun (allavega fyrir áhættufíkil eins og mig) og verður það því fróðlegt að sjá hversu mikilli velgengni við Edda munum fagna við pókerborðið og spilakassana. Smile Þið getið því fylgst spennt með nýju bloggi í næstu viku þar sem Edda mun gera ferðinni góð skil eins og henni er einni lagið. Wink

Lindi


Klukkan o.fl.

Hér var klukkunni seinkað um helgina þannig að á aðfaranótt sunnudags stóð hún í stað í 02:00 í heilan klukkutíma. Við nýttum aukaklukkutímann með eindæmum vel og steinsváfum. Núna erum við þess vegna átta tímum á eftir ykkur sem veldur ákveðnum vandræðum ef við þurfum að hafa samband við einhvern á skrifstofutíma á Íslandi því þá er annaðhvort að vaka fram á nótt eða rífa sig upp fyrir allar aldir. Annar leiðinlegur fylgikvilli á tímaseinkuninni er að nú dimmir klukkutíma fyrr en í síðustu viku.

Við erum annars bara í ágætu stuði. Höfum brallað mest lítið síðustu daga en einbeitt okkur því meira að náminu. Ekki veitir af því í næstu viku tökum við okkur fjögurra daga frí og skellum okkur til Las Vegas.

Alls staðar verður maður var við að það styttist í jólin, kominn jóladrykkjaseðill á Starbucks, jólaskraut í fullt af búðum og farið að plana jólateiti í vinnunni hjá mér. Það er samt frekar fyndið að hér passa allir sig á því að vera "politically correct" og tala um "the Holidays" frekar en "Christmas" því samkvæmt lögum má jú ekki gera upp á milli trúarbragða. Mér finnst þetta fullkomin hræsni því stjórnmálamenn tala stöðugt um Guð í ræðu og riti. Almenningur má samt alls ekki fara í jólaglögg í vinnunni heldur verður að gera sér hátíðarglögg að góðu. 

Edda 


Á vellinum

Skömmu eftir að við Edda komum til Berkeley keyptum við miða á leik með California Golden Bears, sem er lið Berkeley háskólans í amerískum fótbolta. Leikurinn var í kvöld og öttu birnirnir kappi við Washington. Við Edda mættum á leikvanginn sem gallharðir aðdáendur bjarnanna og var upplifunin  vægast sagt ótrúleg.

 

Lúðrasveit

 

Skólahljómsveitin sá um lúðrablástur og marseringu fyrir leik og í hálfleik og var það verulega hressandi.

 

 

Þar sem við Edda höfðum verið það sniðug að kynna okkur reglur amerísks fótbolta fyrir leikinn gátum við fylgst vel með gangi leiksins. Leikurinn var hrein unun á að horfa og stemmningin gríðarleg eins og sést á eftirfarandi myndskoti.

 

 

Eftir spennandi lokamínútur höfðu "okkar menn" að sjálfsögðu vinninginn og er það nærri öruggt að við munum ekki láta okkur vanta á einn af næstu fimm leikjum.

DSC01901

 

Næst er það NBA leikur og dugir ekkert minna en að fara á heimavöll Golden State Warriors og fylgjast með heimamönnum taka á móti meisturum síðasta tímabils, San Antonio Spurs. Það verður eflaust alger snilld.

DSC01902

 

Ho, ho, ho, we say hey, hey, hey.

Lindi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband