Jólaboð o.fl.

Þá er AGU ráðstefnan búin og aldeilis farið að styttast í jólaheimsóknina miklu. Helgin fór að miklu leyti í að gera íbúðina heimsóknarvænni. Við þrifum, jólaskreyttum og fengum lánað leirtau og stóla svo gestirnir svelti nú ekki standandi hjá okkur. Næsti föstudagur mætti þess vegna renna upp sem fyrst núna þegar við erum reiðubúin að taka á móti gestum.

Við fórum í tvö jólaboð í síðustu viku hjá leigusalanum okkar og voru þau ansi fróðleg. Boðsgestirnir höfðu allir sem einn fjárfest í dagatölum sem telja niður dagana þar til Bush lætur af embætti. Deildar meiningar voru samt um hvort Clinton eða Giuliani myndu vinna næstu kosningar. Við blönduðum okkur ekki mjög mikið í þær umræður en svöruðum þeim mun fleiri spurningum um Ísland (þ.á.m. um dýralíf við landnám, Íslendingasögurnar og Snorra-Eddu en einkum um jarðhita og íslenska markaðinn). Ég sá auðvitað að megninu til um jarðhitafræðsluna en Lindi sá um markaðsmálin Wink.

Lindi lenti í djúpum samræðum við einn gestanna um áhrifin af lækkandi gengi dollarans. Lindi vildi meina að lægra gengi hefði jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuð Bandaríkjanna. Gesturinn var sammála því en á spýtunni hékk þó að nú um stundir væri lítið sem ekkert framleitt í Bandaríkjunum heldur hefði öll framleiðsla verið færð til Kína. Og "punchline-ið" hans var nokkuð gott:

"This is America, the only thing we make are lawsuits and hamburgers!"

Að lokum viljum við af einskærri væntumþykju benda lesendum á að fá sér aldrei flan, sama hversu girnilegt það lítur út fyrir að vera. Við gerðum þau hrikalegu mistök að smakka flan í einu jólaboðinu og höfum aldrei átt jafnerfitt með að koma neinu niður. Áferðin var eins og bakaður sóli og bragðið ólýsanlegt!

Góðar stundir,  Edda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband