Vegas ferðin í máli og myndum

Þá er komið að því sem þið hafið öll beðið eftir, lömbin mín. Ferðasagan frá Vegas. 

Við lögðum í hann eldsnemma síðastliðinn miðvikudag, röltum út á lestarstöð og tókum BART-inn út á flugvöll. Flugið til Vegas tók rétt rúman klukkutíma og við vorum mætt á svæðið um 10 leytið. Við vorum með bílaleigubíl fyrsta daginn og eftir að hafa villst aðeins af leið cruisuðum við um Strip-ið (aðalgatan á svæðinu fyrir fáfróða lesendur) í blæjubíl og glampandi sól. Það var ótrúlega súrrealískt að vera allt í einu stödd í Las Vegas og sjá allar byggingarnar og furðulegheitin þar með eigin augum. Við vöndumst því nú samt smám saman.

Edda við bílinn góða 

Miðvikudagurinn fór sem sagt í að keyra um þangað til við gátum tékkað okkur inn á Luxor hótelið. En þá hófust vandræðin. Okkur hafði verið sagt að undir engum kringumstæðum gætum við tékkað okkur inn fyrir þrjú en svo þegar við mættum á svæðið var klárt að það var eintóm vitleysa. Fjöldi manns hafði tékkað sig inn fyrr um daginn og höfðu öll herbergi af gerðinni sem við pöntuðum fyllst og okkur var því troðið í glatað herbergi. Við vorum ekki alls kostar sátt við það og báðum um að fá þetta leiðrétt og áttum að fá rétt herbergi á hádegi daginn eftir. Það gekk ekki eftir og við þurftum sífellt að bíða klukkutíma lengur en gert hafði verið ráð fyrir og þannig gekk það allan daginn.

Luxor hótelið slaka

Hluti fimmtudagsins fór þannig í vaskinn því við fengum ekki herbergið fyrr en klukkan fimm og höfðum þurft að bíða á hótelinu allan daginn. Við vorum frekar pirruð yfir þessu, kvörtuðum og lentum á einhverjum óhæfasta yfirmanni sem fyrirfinnst. Hann kenndi okkur um allt sem hafði misfarist með fáránlegum rökum og var hinn dónalegasti. Þá gáfumst við upp, ákváðum að standa ekki í þessum monkey bisness lengur og færðum okkur yfir á New York, New York hótelið daginn eftir. Við sáum sko ekki eftir þeirri ákvörðun þar sem New York hótelið var mun betur staðsett en Luxor og herbergið okkar þar miklu notalegra.

 

Frelsisstyttan

En nóg um það. Við brölluðum margt og mikið þessa fimm daga sem við dvöldum í Las Vegas. Fyrst og fremst löbbuðum við þó. Við löbbuðum svo mikið að ég neyddist til að fjárfesta í nýjum skóm. Vegalendirnar þarna eru nefnilega lygilega langar og í hitinn gerði það að verkum að eftir nokkra klukkutíma labb voru fæturnir við suðumark.

 

Sigurboginn

 

Við röltum sumsé á milli hótela sem sum hver eru ansi skrautleg. Venetian hótelið kostaði t.d. meira en Kárahnjúkavirkjun. Það er byggt í ítölskum stíl og inni í því er eftirlíking af göngugötum Feneyja með síkjum og alles. Gestum býðst svo að fara í rómantíska siglingu á gondólum um síkin undir ómfögrum söng gondólaræðara. Við pössuðum á það enda með eindæmum rómantísk hvort eð er.

 Gondólasíkið

Önnur hótel voru álíka ýkt. Sigurbogi og Eiffel turn í um 66% stærð fyrir framan Paris hótelið, frelsisstytta fyrir framan New York hótelið, Colosseum, Trójuhestur, guðalíkneski o.fl. á Ceasars Palace og svo mætti lengi telja. Innan í öllum hótelunum voru svo göngugötur með ógrynni verslana og veitingastaða.

 

 Eiffel turninn

Á rölti okkar um hótelin tékkuðum við líka á spilavítunum og Lindi fjárfesti í einum $1 dollara spilapeningi á hverjum stað. Við gömbluðum auðvitað eitthvað. Lindi var samt aðallega í póker en ég tékkaði á nokkrum spilakössum. Lindi tók sig líka til og tók þátt í 117 manna pókermóti og haldiði að kallinn hafi ekki bara lent í 14. sæti. Geri aðrir betur.

 

Lindi í pókermótinu

 

Það væsti ekki um okkur á kvöldin því við skelltum okkur á þrjár sýningar. Upphaflega ætluðum við bara að fara á Cirque de Soleil - Mystére en við fengum svo helmings afslátt af miðum á Copperfield og Carrot Top svo við skelltum okkur á þær líka. Copperfield var slakastur (kannski FBI rannsókn hafi eitthvað verið að valda honum hugarangri) en Carrot Top og Mystére algjört æði og hvetjum við alla sem eiga leið um Las Vegas að tékka á þeim.

 

Lindi við MGM hótelið

 

Heilt yfir erum við afskaplega ánægð með ferðina og erum fullviss um að mamma, pabbi, Dagný, Auður og Arna eigi eftir að skemmta sér konunglega þegar við kíkjum þangað með þeim milli jóla og nýárs.

Wynn

Vídjó af ferðinni fær að bíða betri tíma en mig grunar að Lindi útbúi það í vikunni. Edda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bandaríkjamenn eru f.....

Ari (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband