15.10.2007 | 03:54
Af undrum netsins og trjábúum
Mikið afskaplega höfum við verið þakklát fyrir internetið síðustu vikuna. Við höfum fylgst spennt með vefútsendingum sjónvarpsstöðvanna enda ekki á hverjum degi sem meirihlutinn í borginni springur. Tækninni fleygir fram með ótrúlegum hraða. Fyrir þremur árum, þegar ég bjó í Danmörku, var t.a.m. ekki hægt að horfa á fréttir í gegnum netið. Lindi þurfti þess vegna að lýsa merkilegum fréttaútsendingum (eins og þegar Ólafur Ragnar neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin) í gegnum Skype því fréttafíkillinn ég vildi fá þær beint í æð.
Af okkur er annars lítið að frétta. Helginni var að mestu eytt í afslöppun en við kíktum þó á e.k. street festival sem var haldið í Berkeley í dag. Við erum alltaf jafnhissa yfir magningu af furðufuglum sem virðast búa hér. Eitthvað af uppgjafahippum, slatti af rónum og flækingum og heil hrúga af umhverfis- og lífrænt þenkjandi liði.
Almenningur í Berkeley stendur líka nokkuð fast á sínu (eitthvað sem tíðkast ekki á Íslandi, að undanskilinni síðustu viku). T.d. er hluti íbúa óánægður með plön borgarinnar um að fjarlægja skuli nokkur gömul eikartré til að hægt sé að stækka íþróttahús háskólans. Til að mótmæla framkvæmdinni klifraði lítill hópur fólks upp í tréin í janúar og ekki farið niður úr þeim síðan! Já, þið lásuð rétt - það hefur búið í trjám í 10 mánuði! Fólkið kemst nú hvorki lönd né strönd því það er búið að girða tréin af - líklega til að gera áhangendum hópsins erfiðara fyrir að koma mat og helstu nauðsynjum til trjábúanna. Hvernig hægt er að búa í tré í 10 mánuði er ofar mínum skilningi og ég vil t.d. ekki vita hvernig íbúarnir ganga örna sinna. En þessi vanþekking mín kristallar kannski muninn á Íslendingi og sönnum Berkeleybúa. Góðar stundir.
Edda
Athugasemdir
jminn ... það var búið að lýsa Berkeley fyrir mér sem litlum yndislegum háskólabæ, af þessari frásögn er ég farin að hallast að því að ég hafi verið plötuð ;). En ég er nú samt orðin pínu spennt að sjá þetta allt með eigin augum ;):).
Fjóla (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 08:57
Bærinn hefur klárlega sinn sjarma en ég myndi kannski ekki beint segja að hann sé krúttlegur :)
Edda (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 03:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.