8.10.2007 | 03:48
Highway 1
Við leigðum okkur enn einn bílinn þessa helgina og í þetta skiptið fengum við Pontiac beyglu sem var algjört drasl. Til að toppa lélega aksturseiginleika og gegndarlausa bensíneyðslu sakaði afgreiðsludama Avis bílaleigunnar okkur um að vera völd að sprungu á aftari stuðaranum þegar við skiluðum bílnum. Við skiljum ekkert í hvaðan sprungan kom enda lentum við ekki í neinu einasta óhappi meðan við höfðum bílinn. (Það ætti svosem ekki að koma lesendum á óvart þar sem við erum bæði annáluð fyrir að vera einstaklega liprir og öruggir ökumenn.) Allavegana þá fáum við að vita hvert framhaldið verður síðar í vikunni þegar bíllinn hefur verið skoðaður betur.
En að ögn skemmtilegri málum. Mér til mikillar og óvæntrar gleði er löng helgi núna þar sem dagur Kólumbusar er á morgun. Þessu komst ég ekki að fyrr en í gær (laugardag) og hefði hæglega getað mætt í vinnuna á mánudaginn eins og algjör kjáni. Við nýttum það sem af er helginni með ágætum. Í gær keyrðum við ansi langt suður á bóginn á Highway 1 sem liggur meðfram Kyrrahafinu. Bíltúrinn var sérdeilis skemmtilegur enda telst akstursleiðin til fallegustu akstursleiða heimsins (skv. túristabókinni okkar).
Við stoppuðum m.a. í Santa Cruz á leiðinni sem er strandbær (260 þús. íbúar samt) nokkuð sunnan við San Francisco. Þar röltum við m.a. um hálfgert tívolí, skoðuðum klett sem líkist Dyrhólaey og Lindi fékk óvænt strippshow í kaupbæti! Ekki frá mér, heldur eldri konu sem lék sér allsber við hundinn sinn í flæðarmálinu. Ég hef sjaldan séð jafnfyndinn svip á Linda og þegar hann rak augun í konuna. Ekki alveg það sem maður býst við að sjá á alfaraleið.
Í gær hófst svo líka Fleet week sem er árviss viðburður í San Francisco. Þá sigla herskip inn í flóann og orrustuþotur sýna listir sínar. Tilgangurinn ku vera að sýna hernaðarstyrk landsins og vekja aðdáun ungra drengja og stúlkna með vonir um að þau drífi sig í herinn seinna meir. Við látum okkur fátt um finnast en hrikalega eru mikil læti í þessum orrustuþotum.
Góðar stundir. Edda.
Athugasemdir
Líður ykkur þá ekki bara eins og á Eggertsgötunni?
Dagný Ósk Aradóttir, 8.10.2007 kl. 20:17
Nei, þetta er nú sýnu verra en flugvélahávaðinn á Eggertsgötu. Sem betur fer er það þó ekki daglegt brauð að orrustuþotur fljúgi yfir Berkeley.
Edda (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 00:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.